Þórsmörk – meiri þægindi

Um Þórsmörk – meiri þægindi

Þetta er lúxus útgáfan af Þórsmerkurferðinni okkar. Þægilegri gisting og aðbúnaður. Við dveljum tvo fyrstu dagana í þessari ferð í Skálakoti þar sem við kynnumst hestunum og njótum alls þess besta sem Skálakot hefur upp á að bjóða í gistingu og mat. Að því loknu höldum við á vit ævintýranna í Þórsmörk. 

Um hestaferðina Þórsmörk

Þórsmörk og svæðið í kring er einstakt fyrir margra hluta sakir. Umhverfið er stórbrotið með jöklum, grænum fjöllum, giljum og skorningum, skógi vöxnum hlíðum ásamt jökulaurum og jökulám. Sannkallað ævintýraland. Það eru ákveðin forréttindi að geta sameinað hestaferð og þetta fallega landslag í sömu ferðinni. 

 

 

Dag frá degi:
1. Komudagur

Við sækjum þig á BSÍ í Reykjavík klukkan 17:00. Þaðan er haldið sem leið liggur austur fyrir fjall og í Skálakot. Þar snæðum við kvöldverð á Skálakot Manor Hótel og förum yfir ferðaáætlunina og slökum á í heita pottinum áður en við hvílum okkur fyrir næsta dag.
Gisting: Skálakot Manor Hotel, herbergi með sér baðherbergi. Heitur pottur og WiFi. 

2. Reiðkennsla og til móts við Eyjafjallajökul

Eftir morgunverð förum við í hesthúsið og kynnumst hestunum. Við bjóðum upp á kennslu og leiðsögn þar sem við förum yfir hlutina og bjóðum upp á leiðbeiningar og kennslu sem mætir þörfum hvers og eins. Þessi kennsla getur verið einstaklingsbundin eða í litlum hópum, jafnt úti sem inni í reiðhöllinni okkar. Að lokinni kennslu gerum við klárt fyrir þriggja klukkustunda reiðtúr til móts við Eyjafjallajökul. Þá ríðum við upp heiðarlöndin fyrir norðan Skálakot og njótum óspilltrar náttúru og frábærs útsýnis ef vel viðrar. Að ferðinni lokinni er boðið upp á dýrindis kvöldverð og síðan gefst tækifæri á að láta líða úr sér í heita pottinum fyrir svefninn. 
Gisting: Skálakot Manor Hotel, herbergi með sér baðherbergi. Heitur pottur og WiFi. 

3. Reiðskennsla og hestaferð niður á strönd við Holtsós

Þennan morguninn höldum við áfram þaðan sem frá var horfið deginum áður. Farið er yfir tæknileg atriði varðandi hestana áður en við gerum klárt fyrir ferð dagsins. Í þetta skiptið förum við niður á strönd við Holtsós þar sem knöpunum gefst gott tækifæri á að prófa hinar ýmsu gangtegundir og bæta tengsl sín við hestana. Sem fyrr er náttúrufegurðin allt um kring, í rólegu og afslöppuðu umhverfi og fallegu útsýni. Í lok dags er snæddur kvöldverður á hótelinu áður en gengið er til náða. 
Gisting: Skálakot Manor Hotel, herbergi með sér baðherbergi. Heitur pottur og WiFi. 

4. Þórsmörk

Þetta er dagurinn sem við höldum inn í Þórsmörk á vit ævintýranna. Keyrt er að gömlu Markarfljótsbrúnni þar sem hestaferðin hefst. Áður gefst tækifæri á að skoða Seljalandsfoss og Gljúfrabúa. Þennan dag er möguleiki á að hafa hesta til reiðar eða láta þá hlaupa með. Við sjáum svo um að aka með ykkur yfir Krossá en leiðsögumaðurinn sér um að koma hestunum yfir og í náttstað í Húsadal. Þar gistum við í lúxus tjöldum og njótum alls þess sem þessi fallegi dalur hefur upp á að bjóða næstu tvo dagana. 
Dagleið: 20 km
Gisting: ´Glamping´ tjöld í Húsadal. Náttúrulaug, sauna, sameiginlegar sturtur og baðherbergi, bar og veitingastaður, WiFi. 

5. Þórsmörk – Almenningar og Stakkholtsgjá

Þennan morguninn höldum við á vit ævintýranna og ríðum inn á Almenninga sem er afréttur nokkurra bæja undir Eyjafjöllum. Þangað hafa bændur rekið fé um aldir. Leiðsögumaðurinn þekkir svæðið vel og boðið er upp á skemmtilega leiðsögn um svæðið. Hestaferðin inn á Almenninga tekur um fjórar klukkustundir þar sem riðið er í fjölbreyttu landslagi. Þegar við komum til baka í Húsadal gefst tækifæri á að næra sig og rétta aðeins úr sér áður en haldið er aftur af stað.
Í þetta skiptið er riðið yfir Merkuraurana og inn í Stakkholtsgjá sem er einn af þekktustu stöðunum á svæðinu og ekki skemmir fyrir að fara þangað á hestbaki. Gjáin hefur verið notuð sem tökustaður fyrir kvikmyndir, auglýsingar og tónlistarmyndbönd. Við endum daginn aftur í Húsadal þar sem við njótum góðs matar og slökum á fyrir háttinn. 
Gisting: ´Glamping´ tjöld í Húsadal. Náttúrulaug, sauna, sameiginlegar sturtur og baðherbergi, bar og veitingastaður, WiFi. 

6. Skálakot

Komið er að heimferð og við kveðjum Þórsmörk með söknuði um leið og við ríðum út dalinn og í átt að Skálakoti. Hestarnir vita að þetta er dagurinn sem þeir fara aftur heim þannig að þeir spretta úr spori og eru spenntir fyrir að komast aftur í hagann sinn. Um kvöldið borðum við sameiginlegan kvöldverð í Skálakoti, slökum á í heita pottinum og segjum sögur og rifjum ferðina upp.
Dagleið: 40 km
Gisting: Skálakot Manor Hotel, herbergi með sér baðherbergi. Heitur pottur og WiFi. 

7. Fardagur

Að morgunverði loknum ökum við ykkur aftur til Reykjavíkur. Miðum við að vera á BSÍ um klukkan 12:00 á hádegi.

 

Useful information about our long horseback riding tours

Terms and conditions

Aðrar langar hestaferðir sem við bjóðum upp á:

Þórsmörk classic
Into the highlands
Hekla wilderness
Landmannalaugar

Kort af leið: