Landmannalaugar

Swedish translation German Translation

 

Um hestaferðina Landmannalaugar

Þessi hestaferð er sannkallað ævintýri. Einstök upplifun þar sem fer saman stórbrotin náttúra og stórbrotinn hestur ef svo má segja. Aðstæður sem bjóða fólki upp á að kynnast íslenska hestinum á þann hátt sem það hefur aldrei kynnst honum. Þessi ferð er í senn krefjandi með löngum dögum en um leið skemmtileg. Hún er aðeins fyrir reynda hestamenn sem búa yfir mikilli reynslu af útreiðum og eru í góðu líkamlegu ástandi. Eins er þetta tækifæri til að kynnast mismunandi hestum og persónueinkennum íslenska hestsins. Landslagið í þessari ferð býður upp á óendanlega fjölbreyttni og útsýnið er engu líkt. 

Um Landmannalaugar

Landmannalaugar eru staðsettar í norðausturbarmi Torfajökulsöskjunnar  sem er ein stærsta eldstöð á Íslandi. Í Landmannalaugum er jarðfræðilegur fjölbreytileiki mikill og mikið um jarðhita, þarna blandast saman eldur og ís. Litadýrðin í fjöllunum er einstök og Landmannalaugar eru vin í eyðimörkinni. Þar eru grasbalar og heitir lækir umvafin Jökulgili og  Laugahrauninu sem myndaðist í eldgosi árið 1477. 

 

Dag frá degi:
1. Koma

Við sækjum ykkur á BSÍ í Reykjavík klukkan 17:00 og ökum sem leið liggur austur fyrir fjall að Skálakoti. Þar setjumst við að veisluborði og förum fyrir spennandi dagskrá næstu daga. Þeir sem vilja geta slakað á í heita pottinum áður en gengið er til náða. 
Gisting: Skálakot Gistiheimili (svefnpokapláss), sameiginlegt baðherbergi og sturtur. Heitur pottur og WiFi. 

2. Skálakot – Fljótshlíð

Eftir staðgóðan morgunverð, höldum við í hesthúsið og gerum klárt fyrir fyrsta daginn okkar. Við rekum stóðið með okkur. Tökum hádegisverð við gömlu Markarfljótsbrúna og ríðum þaðan áleiðis að Stóru – Dímon og í Fljótshlíðina. Við endum daginn í Eyvindarmúla þar sem við skiljum hestana eftir og ökum að Skálakoti þar sem við gistum. 
Dagleið: 30 km
Gisting: Skálakot Gistiheimili (svefnpokapláss), sameiginlegt baðherbergi og sturtur. Heitur pottur og WiFi. 

3. Fljótshlíð – Emstrur

Þennan dag höldum við á vit ævintýranna og stefnum á Emstrur inn við Markarfljót. Landslagið verður stórbrotnara eftir því sem líður á daginn, gömlu Markarfljótsgljúfrin og Einhyrningur mæta okkur og Tindfjallajökull, Þórsmörk, Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull skapa ógleymanlega umgjörð. Eftir því sem líður á daginn færumst við nær öræfunum með græna fjallstoppa framundan. Við tökum hádegishlé á Hellisvelli og endum daginn í fjallaskálanum á Emstrum inn við Markarfljót. 
Dagleið: 35km
Gisting: Fjallaskáli (svefnpokapláss). Ekkert heitt vatn og bæði rafmagn og símasamband er takmarkað.

4. Emstrur – Hólaskjól

Upp er runninn nýr dagur og okkar bíður lengsta dagleiðin í ferðinni. Við ríðum upp Emstrur framhjá Hattfelli og öðrum tignarlegum grænum fjallstindum og inn á Mælifellssand. Landið verður hrjóstrugra, með svörtum sandi og hrauni. Á hægri hönd er Mýrdalsjökull í allri sinni dýrð og á vinstri hönd Torfajökull. Þetta er stórbrotið landslag svo ekki sé meira sagt. Við skiptum oft um hesta og fólki gefst tækifæri á að prófa mismunandi hesta. Þegar við mjökumst lengra austur tekur á móti okkur Mælifell og Brennivínskvísl. Síðan nálgumst við Hólmsá og þaðan er riðið yfir á Álftavatnskrók og yfir í Hólaskjól þar sem við eigum náttstað næstu nótt. 
Dagleið: 60km
Gisting: Fjallaskáli (svefnpokapláss). Sturtur, rafmagn, takmarkað símasamband, WiFi.

5. Hólaskjól – Landmannalaugar

Við kveðjum Hólaskjól og höldum af stað inn á Nyrðra-Fjallabak. Landslagið heldur áfram að vera fjölbreytt, við ríðum í gegnum Eldgjá sem myndaðist í geysimiklu eldgosi árið 938. Sprungan er um 40 kílómetra löng og margir tugir metra á dýpt, Frá henni rann Eldhraun sem er mesta hraun sem runnið hefur á Íslandi og líklega á jörðinni síðustu þúsund ár eða svo. Eftir áningu í Eldgjá höldum við áfram í átt að Landmannalaugum eftir fjölbreyttum og skemmtilegum reiðleiðum. Þegar komið er í Landmannalaugar skiljum við hestana eftir og ökum í Landmannahelli (30 mín akstur) þar sem við eyðum nóttini og söfnum kröftum fyrir næsta dag. Við dveljum í Landmannahelli næstu tvær nætur. 
Dagleið: 38 km
Gisting: Fjallaskáli (svefnpokapláss). Sturtur. Ekkert rafmagn og takmarkað símasamband.  

6. Landmannalaugar – Landmannahellir

Við byrjum daginn á að aka frá Landmannahelli að Landmannalaugum þar sem við skildum við hestana kvöldið áður. Við tekur frekar stutt en skemmtileg dagleið. En áður en við höldum af stað gefst tækifæri á að ganga um í Landmannalaugum eða skella sér í laugina þar og skola af sér ferðarykið. Frá Landmannalaugum förum við yfir að Frostastaðavatni og áleiðis inn á Dómadalsleið í Landmannahelli. Við gistum aftur í Landmannahelli og njótum kvöldsins í að slappa af og borða góðan mat. 
Dagleið: 20 km
Gisting: Fjallaskáli (svefnpokapláss). Sturtur. Ekkert rafmagn og takmarkað símasamband.  

7. Landmannahellir – Emstrur

Nýr dagur er runnin upp og okkar bíða ný ævintýri. Við tökum stefnuna til suðurs milli Hrafntinnuskers og Heklu. Við ríðum yfir Pokahrygg í um 1000 metra hæð. Ef skyggnið er gott er útsýnið þaðan stórkostlegt til Langjökuls og Hofsjökuls. Þá er riðið niður Reykjadal þar sem mikið er af jarðhita. Framhjá Laufafelli þar sem við borðum hádegismat og þaðan er stefnan tekin á Álftavatn og yfir á Krók. Tvisvar er riðið yfir Markarfljót á þessari leið. Frá Krók er síðan farið yfir á Emstrur og gist í skálanum þar. Þetta er langur dagur og bæði hestar og menn verða fegnir þegar komið er í skálann þar sem hægt er að næra sig og hvíla fyrir næsta dag.
Dagleið: 60 km
Gisting: Fjallaskáli (svefnpokapláss). Ekkert heitt vatn, takmarkað rafmagn og takmarkað símasamband. 

8. Emstrur – Skálakot

Frá Emstrum ríðum við til suðvesturs, hestarnir finna að við erum á heimleið og greikka sporið til móts við heimahagana. Við ríðum sömu leið og fyrsta og annan daginn. Mögulegt er að fá far frá gömlu Markarfljótsbrúnni og stytta þar með dagleiðina aðeins. Bæði knapar og hestar fagna heimkomunni. Hestarnir í grænum haganum og knaparnir við góðan kvöldverð í góðum félagsskap og jafnvel í heita pottinum áður en gengið er til náða. 
Dagleið: 62 km
Gisting: Skálakot Gistiheimili (svefnpokapláss), sameiginlegt baðherbergi og sturtur. Heitur pottur og WiFi. 

9. Brottför

Við sofum út, fáum okkur góðan morgunmat og höldum síðan til Reykjavíkur, við reiknum með að vera þar um klukkan 12:00.

 

Það er möguleiki að uppfæra gistinguna þær nætur sem gist er í Skálakoti en það þarf að borga aukalega fyrir það.

Useful information about our long horseback riding tours

Terms and conditions

 

Aðrar langar hestaferðir sem við bjóðum upp á:

Comfy Þórsmörk tour
Þórsmörk Classic
Hekla Wilderness
Into the Highlands

Kort af leið: